Grunnnám

Fornleifafræði fjallar um mannleg samfélög með því að rannsaka áþreifanlegar minjar um þau, hvort heldur sem er gripi, byggingar, úrgang eða umhverfi. Fornleifafræði fjallar fyrst og fremst um fortíðina en í vaxandi mæli er aðferðum hennar einnig beitt til að greina samfélög nútímans.

Markmið náms í fornleifafræði er að nemendur fái góða innsýn í kennilega undirstöðu fræðigreinarinnar, fái þjálfun í fornleifafræðilegum aðferðum og góðan þekkingargrunn í almennri fornleifafræði og íslenskri fornleifafræði.

Hægt er að ljúka BA-, MA-, og Ph.D.-gráðu í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Til að geta hafið nám við deildina þarf nemandi að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun. Meginregla er að nemendur hefji nám í fornleifafræði til BA prófs á haustmisseri. Námsbraut er heimilt að gera undanþágu frá þessari reglu. Gert er ráð fyrir að nemendur afli sér reynslu við fornleifarannsóknir, eða tengd verksvið, sem samsvarar 4 vikna vinnu á námstímanum eða 5 E námskeiði á vettvangi. Heimilt er að nýta til reynslu námskeiðið Vettvangsreynsla í fornleifafræði til þess.