Námskeiðslýsingar

Námskeiðslýsing á skyldunámskeiðum í BA-námi.

Frekari upplýsingar um námskeiðin er hægt að nálgast í kennsluskrá Háskóla Íslands.

Aðferðafræði I    10 ETC
Í námskeiðinu verður farið yfir grundvallaratriði fornleifafræðilegrar aðferðafræði. Helstu efni sem fjallað verður um eru: Saga aðferðafræðinnar, löggjöf og siðfræði, undirbúningur rannsókna, rannsóknaráætlanir og heimildakönnun, fornleifaskráning, loftljósmyndun og fjarkönnun, aðferðir við uppgröft og úrvinnslu uppgraftargagna, gagnasöfn, forvarsla og miðlun. Námskeiðið er kennt með fyrirlestrum og umræðutímum en í upphafi misseris verður námskeiðið kennt á vettvangi. Önnur námskeið í fornleifafræði sem kennd eru á sama misseri munu taka mið af því.

Vinnulag í fornleifafræði    5 ETC
Námskeiðið er kennt með heimspekilegum forspjallsvísindum. Markmið: Að nemendur: -tileinki sér fræðileg vinnubrögð og temji sér gangrýna hugsun við alla þætti vinnu sinnar -séu færir um að skrifa fræðilega ritgerð/texta, þar sem kröfur eru gerðar til röklegrar uppbyggingar, áreiðanlegrar heimildanotkunar/meðhöndlunar gagna og greinargóðrar málnotkunar -séu kunnugir helstu gerðum ritheimilda sem nýttar eru innan fornleifafræði, viti hvar megi nálgast þær og hvernig beri að meðhöndla þær Inntak/viðfangsefni: Farið verður yfir mikilvæga þætti í ritun fræðilegs texta með áherslu á ritgerðaskrif en einnig fjallað um önnur form sem varða fornleifafræði sérstaklega, s.s. uppgrafta- og skráningaskýrslur. Fjallað verður um heimildanotkun og lögð áhersla á gagnrýnið viðhorf við meðferð og túlkun texta. Rætt verður um mismunandi gerðir heimilda sem í boði eru, og hvernig þær nýtast fornleifafræðingum við rannsóknir. Einnig verður rætt um hvað greinir að/sameinar fornleifar og texta og möguleika á samspili þeirra í fræðilegri umfjöllun. Kennsluhættir/vinnulag: Kennsla verður að nokkru leyti í formi hefðbundinna fyrirlestra, en megináhersla verður á virka þátttöku nemenda m.a. með verkefnavinnu. Einnig verður farið í heimsóknir á stofnanir, s.s. Þjóðarbókhlöðu, Þjóðskjalasafn, Þjóðminjasafn Stofnun Árna Magnússonar og Örnefnastofnun. 

Inngangur að fornleifafræði I    10 ETC
Yfirlitsnámskeið um viðfangsefni og aðferðir fornleifafræðinnar. Hvað er fornleifafræði? Saga fornleifafræðinnar, hugmyndafræðilegur grundvöllur og samband hennar við aðrar greinar fortíðarvísinda. Hvernig eru fornleifar notaðar til að varpa ljósi á samfélagsgerð, umhverfi, hagkerfi og viðskipti, trú og hugmyndafræði, þróun og breytileika? 

Heimspekileg forspjallsvísindi    5ETC
Meginmarkmiðið með heimspekilegum forspjallsvísindum er að vekja nemendur til gagnrýninnar umhugsunar um forsendur vísinda og fræða almennt og um það tiltekna fræðasvið sem þeir leggja stund á. Að námskeiðinu loknu eiga nemendur að hafa gert sér grein fyrir gildi gagnrýninnar hugsunar að þekkja muninn á vísindalegri aðferð og hversdagslegri skoðanamyndun að geta gert greinarmun á túlkun og skýringu á fræðasviði hugvísinda að hafa velt fyrir sér sérstöðu hugvísinda gagnvart öðrum vísindagreinum að hafa velt fyrir sér álitamálum í siðfræði vísinda, þar á meðal spurningum um gildi sannleikans, hlutleysi vísinda og tengsl vísinda og samfélags 

Viðfangsefni Fjallað er um hugvísindin og stöðu þeirra gagnvart öðrum vísindum og í samfélaginu; um gagnrýna hugsun og skoðanamyndun; um vísindalega aðferð og þar með um túlkun og skýringar í hugvísindum; og um ýmis álitamál í siðfræði vísinda, svo sem sannleikshugtakið og spurninguna um hlutleysi vísinda. Lesnir eru sígildir textar og samtímaefni sem lúta að þessum viðfangsefnum.

Kennsluhættir Kennslan fer að jafnaði fram í fyrirlestrum og umræðum. Vefkerfið Ugla býr yfir ýmsum möguleikum sem notaðir verða til stuðnings kennslunni. Í fyrirlestrum verður leitast við að setja fram viðfangsefnið, skýra helstu þætti og varpa fram spurningum. Fyrirlestrar eða glærur með punktum úr fyrirlestrum verða settir á heimasvæði námskeiðsins í Uglunni. Til þess að hafa gagn af námskeiðinu þurfa nemendur að kynna sér meginlesefni fyrir hverja kennslustund, og helst að lesa a.m.k. eina grein úr hliðsjónarefni hvers meginlesefnis.

Námsmat Skriflegt próf (100%) sem verður blanda af krossaspurningum úr lesefni og völdum ritgerðarspurningum úr umræðuefnum námskeiðsins. 

Íslensk fornleifafræði   10 ETC
Yfirlitsnámskeið um íslenska fornleifafræði, sögu hennar, viðfangsefni og stöðu þekkingar. Námskeiðinu er skipt í sex hluta þar sem gerð er grein fyrir helstu straumum í íslenskri fornleifafræði: fornmenn og furðuminjar, rómantík, víkingar, íslensk menningarsaga, umhverfi, samfélag. Kynntar verða helstu rannsóknir sem gerðar hafa verið og fjallað um áhrif þeirra á söguskynjun Íslendinga og fræðilega umræðu. Að námskeiði loknu eiga nemendur að kunna skil á einkennum íslenskra fornleifa og geta lýst helstu tegundum gripa, hráefnum og byggingatækni.

 Forsaga   10 ETC
Yfirlit um steinöld, bronsöld og járnöld, um 1.500.000 til 500 f. Kr.nFjallað er um upphaf áhaldagerðar í samhengi við þróun mannsins ognútbreiðslu hans um jörðina. Farið er yfir kenningar um samfélagsgerð ognefnahagsgrundvöll samfélaga fornsteinaldar og miðsteinaldar. Fjallað ernítarlega um landbúnaðarbyltinguna og fyrstu flóknu samfélögin, ínEgyptalandi, Mesópótamíu, Indusdalnum, Kína og Mið-Ameríku. Útbreiðslanlandbúnaðar í Evrópu, stórsteinungasamfélög Norður- og Vestur-Evrópu,nupphaf málmsmíða í Austurlöndum nær, samfélagsgerð og samfélagsbreytingarná bronsöld og járnöld, einkum í Evrópu og á Norðurlöndum. 

Kennsla fer að hluta til fram á ensku.

Aðalnámsbók: Champion, Gamble, Shennan & Whitle: Prehistoric Europe (3.útgáfa), Academic Press 1997.