Skálholt

Þegar nám er hafið í fornleifafræði er nemum svo sannarlega skellt í djúpu laginu.  Upphaf námsins hefst í Skálholti þar sem nemar fá að reyna sig í fornleifauppgrefti.  21 nemi voru í vikudvöl í Skálholti. Nemunum var skiput upp í fjóra hópa hvern dag og unnu við mismunandi aðferðir fornleifafræðinnar.  Fornleifaskráning, tveir könnunarskurðir voru grafnir ásamt uppgrefti á stærra svæði. Fjórir leiðbeinendur voru nemunum til halds og trausts, tveir MA nemar (Ásta og Una) Gavin Lucas kennari við Háskóla Íslands ásamt Ugga Ævarssýni frá Fornleifavernd Ríkisins. Hópunum var kenndur ýmsar aðferðir við uppgröft, hvernig á að grafa, teikna í plani og snið, lýsing jarðlaga og svo framvegis. Hver hópur fyrir sig sá svo um matinn einn dag vikunnar. Svæðin sem nemarnir rannsökuðu voru: hugsanleg prentsmiðja og tvö garðalög ásamt skráningu á fjárhúsi og kálgarði til þess að kynnast hvernig fornleifaskráning fer fram.

En hvað ætli nemunum sjálfum finnist um þetta fyrirkomulag?

Þetta fyrirkomulag í kennslunni er mjög sniðugt, þ.e. að fá strax í upphafi náms nasasjón af aðferðum við lýsingu og uppgröft. Ég hafði áður lesið lítið eitt um vettvangsskóla hjá nokkrum erlendum háskólum þar sem “fornmunum” er komið fyrir í jarðvegi og nemendur æfðir í uppgreftri og forvörslu að einhverju leyti samhliða, á tilbúnum vettvangi. Fannst sú hugmynd góð þar til ég tók þátt í vettvangsvinnunni í Skálholti. Vinnan á ósviknum vettvangi fornminja er bæði mjög spennandi og lærdómsrík, fyrir utan að vera skemmtileg.Læt fylgja þetta niðurlag skýrslunnar minnar um vettvangsvikuna: “Vettvangsvikan í Skálholti var mjög lærdómsrík, sérstaklega má nefna staðar- og minjalýsingu, uppgraftarvinnuna, og mæli- og skráningaraðferðir. Það var líka mikilvægt að kynnast félagslega þættinum í vettvangsvinnunni, bæði þegar kom að því að skipta með sér verkum í hópum og því sem laut að mat og drykk og öðrum sameiginlegum þáttum í svona náinni samvinnu.”

Júlíus Óli Einarsson 

Ég kunni vel við það að byrja á því verklega. Persónulega lagðist svona útiveruvinna og nokkuð erfið á köflum vel í mig. Ég er slíku vanur. Dvölin var notaleg og góð aðstaða á svæðinu. Veðrið var allskonar. Það var eiginlega fátt sem kom mér persónulega á óvart. Helst hvað “budgetið” er lítið miðað við mikilvægi fornleifafræðinnar.  Jónas Haukdal Jónasson