Umsagnir nemenda

Albína Hulda hóf nám í fornleifafræði árið 2002 og útskrifaðist árið 2005 hún hefur þetta að segja um námið:

Ég var svo heppin að vera í fyrsta árgangnum sem hóf BA nám í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Um leið og ég byrjaði sá ég að þarna var komið fullkomið fag fyrir mig. Fornleifafræði er svo heillandi blanda af jarðfræði, líffræði, sögu, félagsvísindum og svo mætti lengi telja. Námið kenndi mér að horfa á hlutina á gangrýninn hátt og að vinna með gögn úr ólíkum áttum til að læra eitthvað nýtt um fortíðina.

Albína Hulda Pálsdóttir

Dýrabeinafornleifafræðingur

Bjarney Inga hóf nám í fornleifafræði árið 2004 og útskrifaðist árið 2009.

Ég hóf nám í fornleifafræði árið 2004 og fólk undraðist á mér að veljaþetta nám. Þrátt fyrir það stefni ég núna á mastersgráðu í faginu og tel ég það bestu umsögn um námið sem ég get gefið. Námið er margbreytilegt og námskeiðin fjölbreytt. Kennararnir koma úr mismunandi áttum og eru því áherslur þeirra mismunandi. Einstaklega skemmtilegt er hvernig vettvangsnámið hristir nemendurnar saman og út af því er félagslífið ótrúlega fjörugt – KUML er kannski lítið nemendafélag, en það hefur verið öflugt í gegnum árin.

Bjarney Inga Sigurðardóttir

Mastersnemi í fornleifafræði

Þegar ég hóf nám í fornleifafræði í Háskóla Íslands leið mér eins og ég 
væri komin heim. Fjölbreytni fræðigreinarinnar heillaði mig þar sem tekist
var á við fjölmörg ólík verkefni sem voru bæði skemmtileg og krefjandi.
Þar lærðum við meðal annars að beita gagnrýnni hugsun og safna saman
allskyns upplýsingum um fortíðina og setja þær í samhengi. (Ekki ósvipað
réttarvísindum). Sólrún Inga Traustadóttir

BA í fornleifafræði / Master í hagnýtri menningarmiðlun,

Með því að skrá mig í nám í fornleifafræði lét ég æskudraum minn rætast. Ég hafði áhuga á fornleifafræði en ég ætlaði mér aldrei að grafa upp kuml því mér fannst íslensk fornleifafræði ekki nægilega áhugaverð. Það breyttist strax á fyrstu önninni – nánar tiltekið upp í Skálholti. Námið kom mér mjög á óvart, það var fjölbreytt, fyrirlestrar áhugaverðir og kennararnir eru flestir fornleifafræðingar svo þeir gátu bæði bæði miðlað efni viðkomandi áfanga og sett það svo í samhengi við raunveruleikann fyrir utan veggi háskólans. Einnig finnst mér vettvangskennslan stór og mikilvægur þáttur sem styrkir námið auk þess að hrista saman fornleifafræðinemana. Í dag að yrði það heiður að fá að grafa upp kuml. Þuríður Elísa Harðardóttir

BA- nemi í fornleifafræði og nýbúin að skrá mig í Masternám í fornleifafræði