MA nám

Um er að ræða tveggja ára (fjögurra missera) fræðilegt framhaldsnám í fornleifafræði. Það er 120 einingar, þar af 40 eða 60 eininga lokaverkefni, og lýkur því með MA-prófi. Full námsframvinda á einu misseri miðast við 30 e. MA-próf með fyrstu einkunn veitir aðgang að doktorsnámi. Markmið MA-námsins er að veita nemendum vísindalega þjálfun á sviði íslenskrar fornleifafræði og búa þá m.a. undir kennslustörf á framhaldsskólastigi, vísindastörf af ýmsu tagi og doktorsnám ef því er að skipta. Stúdent sem lokið hefur BA-prófi (eða samsvarandi prófi) á sviðum hug-, félags-, raun- eða búvísinda getur sótt um að innritast í meistaranám í fornleifafræði.

 Í náminu eiga nemendur m.a. að hafa öðlast nákvæma þekkingu og skýran skilning á að minnsta kosti einu sviði menningarsögu og/eða fornleifafræðilegrar aðferðafræði. Þeir eiga að hafa fengið yfirsýn yfir ólík sjónarmið, aðferðir og hugmyndir sem stýra rannsóknum á því tímabili eða tímabilum sem rannsóknir þeirra taka til og geta sett eigin viðfangsefni í vítt samhengi, lagt sjálfstætt mat á ágreiningsefni innan fræðanna og borið eigin niðurstöður saman við niðurstöður annarra fræðimanna.

Til MA-prófs er krafist minnst 120 eininga. Námsþættir eru þrenns konar; námskeið, einstaklingsverkefni og MA-ritgerð (40-60 einingar). Nemendur skulu ljúka öllum námskeiðum, þ.m.t. málstofum, sem kennd eru á MA-stigi í fornleifafræði á fyrra námsári. Heimilt er að ljúka allt að 20 einingum á MA-stigi í öðrum greinum og í námskeiðum á BA-stigi í fornleifafræði eða úr öðrum greinum. 10 eininga námskeið af BA-stigi skulu metin til þriggja eininga, nema þar séu gerðar auknar námskröfur. Einstaklingsverkefni eru valfrjáls. 

Nemendum er ekki heimilt að leita eftir leiðbeinanda vegna lokaritgerða í fornleifafræði utan HáskólaÍslands nema með samþykki fastra kennara í námsbrautinni. Samþykki þetta þarf að fá áður en vinna við ritgerð hefst. Fastir kennarar eru Steinunn Kristjánsdóttir (námsbrautarformaður), Orri Vésteinsson og Gavin Lucas. Þegar nemandi vill hefja undirbúning og ritun lokaritgerðar skal hann hafa samband við eitthvert þeirra þriggja og óska eftir leiðsögn. Munu leiðbeinandi og nemandi síðan ákveða í sameiningu hvernig vinnu við ritgerð verður háttað.