Nám í fornleifafræði

Markmið námsins er að nemendur fái góða innsýn í kennilega undirstöðu fornleifafræðinnar, fái þjálfun í fornleifafræðilegum aðferðum og góðan þekkingargrunn í almennri fornleifafræði og íslenskri fornleifafræði.

Nám í fornleifafræði

Fornleifafræði fjallar um forn samfélög með því að rannsaka minjar um þau. Fornleifafræði fjallar fyrst og fremst um fortíðina en í vaxandi mæli er aðferðum hennar einnig beitt til að greina samfélög nútímans. Fornleifafræði getur verið söguleg eða forsöguleg. Söguleg fornleifafræði miðast við það þegar myndmál eða textar eru aðgengilegir sem grunngögn við hlið fornleifa en forsöguleg fornleifafræði miðast eingöngu við aðgang að fornminjum.

Fornleifafræði getur veitt upplýsingar um tiltekna einstaklinga og hugmyndir þeirra, jafnt sem langtímaþróun samfélaga, efnahagsleg og pólitísk kerfi og breytingar á þeim, landnýtingu og framleiðsluferli, tækni og tísku, handverk og listsköpun og vitund. Fornleifafræði sækir aðferðafræði sína og kennilegan grunn jöfnum höndum til hug- og félagsvísinda auk þess sem raunvísindalegar aðferðir hafa skipað nokkurn sess í fornleifarannsóknum síðan um 1960. Er þar helst að nefna greiningar manna- og dýrabeina, skordýra og frjókorna, auk aldursgreininga af ýmsu tagi. Hin síðustu ár hafa rannsóknir fornleifafræðinga beinst í auknum mæli að félagslegum þáttum sem lesa má úr efnismenningu fortíðar.

Fornleifafræði fæst við að lesa úr, túlka og draga ályktanir um horfin samfélög út frá brotakenndum heimildum og reynir því oft á rökhyggju og öguð vinnubrögð. Við vettvangsvinnu reynir ennfremur á verkvit og líkamlegt úthald. Fornleifarannsóknir – einkum vettvangsvinna – felast oftar en ekki í samstarfi margra fræðimanna og reynir slíkt á félagsþroska og getu til að skilja og nýta ólík sjónarmið og ólíkar fræðigreinar.

 Markmið

Markmið náms í fornleifafræði til BA-prófs er að veita undirstöðu undir störf við fornleifarannsóknir og minjavörslu á Íslandi. Námið er jafnframt hugsað sem almennt nám sem veitir þjálfun í þverfaglegum vinnubrögðum, gagnrýnni hugsun og greiningu sem kemur að notum við margvísleg störf í nútímasamfélagi. Nám í fornleifafræði til MA-prófs og doktorsprófs er ætlað þeim sem hyggja á rannsóknarstörf á sérhæfðari sviðum innan greinarinnar.

Kennsluhættir 

Verkleg kennsla í fornleifafræði fer fram á vettvangi fornleifa-rannsókna og í kennslustundum. Bókleg kennsla fer fram í fyrirlestrum, samræðuformi og málstofum. Tímasókn er mikilvæg en því aðeins hafa menn gagn af henni að þeir komi vel undirbúnir og frumskilyrði er að hafa lesið það efni sem fjalla á um hverju sinni.

Starfsvettvangur fornleifafræðinga

Erlendis er hefð fyrir því að skipta fornleifafræðingum í tvo hópa eftir því hvor þeir leggja fyrst og fremst stund á vettvangsvinnu – uppgröft eða skráningu – eða hvort þeir stunda vinnu sína að mestu innandyra, við túlkun, úrvinnslu, sérfræðigreiningar, kennslu, stjórnsýslu eða safnvörslu. Á Íslandi hefur slík aðgreining ekki tíðkast og flestir fornleifafræðingar sinna hvoru tveggja, vettvangsvinnu og innistörfum.

Söfn voru lengi vel helstu vinnustaðir fornleifafræðinga, einkum Þjóðminjasafnið, en nú eru einkarekin fyrirtæki stærstu vinnustaðir þeirra, auk Fornleifaverndar ríkisins. Nokkrir fornleifafræðingar vinna einnig á söfnum, bæði við rannsóknir og almenn safnastörf. Eins starfa margir fornleifafræðingar sjálfstætt og byggja þannig afkomu sína á rannsóknum sem unnar eru fyrir fjárframlög úr innlendum og erlendum sjóðum, líkt og einkareknu fyrirtækin gera. Þau sinna þó jafnframt þjónustuverkefnum fyrir einstaklinga, ríki og sveitarfélög vegna hvers konar framkvæmda.

Fyrir utan það sem hér hefur verið talið vinna fornleifafræðingar við ýmis önnur störf, m.a. á fjölmiðlum og við kennslu á háskóla- eða framhaldsskólastigi.